„Þetta er ekki gott. Það er búið að segja upp tugum starfsmanna á fréttasviði á þessu ári, án þess að dagskráin hafi styst eða fréttatímum fækkað. Álagið hefur aukist og það má segja að við hlaupum hraðar en fyrir færri krónur. Nýlega sagði RÚV upp samningi um svokallaða fatapeninga sem fréttamenn hafa fengið greidda og svo kemur þessi launaskerðing ofan á allt saman,“ segir Aðalbjörn Sigurðsson, formaður Félags fréttamanna.
Óánægja ríkir meðal fréttamanna með hversu nærri hefur verið gengið fréttastofum RÚV. Félag fréttamanna sendi frá sér harðorða yfirlýsingu um síðustu mánaðamót, þegar 700 milljóna króna sparnaðartillögur voru kynntar. Þann niðurskurð sem snýr að fréttasviði, kallaði Félag fréttamanna aðför að fréttastofunni.
Í yfirlýsingu félagsins sagði að geta fréttastofunnar til faglegrar og vandaðrar umfjöllunar væri verulega sködduð. Þá hafnaði félagið alfarið boðuðum launalækkunum almennra starfsmanna undir hótun um brottrekstur.
Félag fréttamanna hefur boðað fréttamenn hjá RÚV ohf. til fundar í kvöld til að ræða stöðu sína.