Á morgun verður hleypt af stokkunum undirskriftarsöfnun á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is. Þar gefst þjóðinni kostur á að skora á Alþingi að samþykkja að boða til stjórnlagaþings – nýs þjóðfundar, segir í tilkynningu.
„Hlutverk þess þings verði að semja nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi m.a. með skýrri aðgreiningu löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds og með gagngerri endurskoðun á kosningareglum til Alþingis.
Að áskoruninni stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins,“ segir í tilkynningunni.