Fráleitt að greiða vextina

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal

Pétur H. Blöndal alþingismaður telur að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar beri Íslendingum ekki að greiða kröfur ESB-ríkja um þær. „Ef við neyðumst til þess vegna ofbeldis og ofureflis eða með vísan í óljósar alþjóðlegar skuldbindingar þá er fráleitt að við greiðum vexti á skuldina,“ segir Pétur í bréfi til Lárusar L. Blöndal, sem Pétur hefur sent fjölmiðlum.

Lárus hefur ásamt Stefáni Má Stefánssyni prófessor skrifað greinar um innistæðutryggingarnar í Morgunblaðið. Hann skrifaði alþingismönnum bréf í framhaldi af fréttaskýringu í Fréttablaðinu í síðustu viku sem Lárusi virtist vera einhvers konar svar við skrifum þeirra Stefáns Más.

Lárus fjallar nánar um umfjöllun Fréttablaðsins og skrifar:  „Birtur er á ensku hluti af tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar sem sagður er sýna fram á að það sem við höfum haldið fram um að aðildarríki beri ekki ábyrgð á innistæðum ef þau hafi komið á fót innlánstryggingarkerfi í samræmi við tilskipunina, sé röng.  Rétt þýðing sé að óvíst sé að ábyrgð falli á aðildarríki hafi það tekið upp slíkt kerfi.  Þessi niðurstaða er í engu samræmi við veruleikann enda hverslags reglusetning er það sem skilur alla eftir í óvissu ef eftir henni er farið.   Á íslensku er þessi hluti tilskipunarinnar svohljóðandi: 

„Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innistæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.“  Þar sem tungumál aðildarríkjanna eru jafnrétthá  innan Evrópusambandsins sendi ég ykkur í viðhengi þennan hluta tilskipunarinnar á þýsku, dönsku, frönsku og spænsku og dæmi nú hver fyrir sig.
 
Að lokum vil ég hvetja þingmenn til að standa í ístaðinu og verja hagsmuni Íslands í þessu máli.  Það hefur enginn umboð frá íslensku þjóðinni til að skuldsetja hana um hundruð milljarða umfram skyldu.  Því ber okkur  að láta á þetta reyna náist ekki ásættanlegir samningar.“

Pétur segir m.a. í svarbréfi sínu til Lárusar: 

„Þetta innlegg er afar mikilvægt og þurfa samningamenn okkar að hafa það í huga. Auðvitað reyna erlendir viðsemjendur okkar að heilaþvo okkur og segja að allt Evrópusambandið geti ekki haft á röngu að standa en við á réttu. En það hentar þeim einmitt í samningsstöðunni. Og valdið hafa þeir sín megin en greinilega ekki lögin.
 
Okkur, sem erum í erlendum samskiptum skiptir það miklu máli að geta sýnt þingmönnum frá ýmsum löndum þessa texta.
 
Fyrir íslenska þjóð skiptir þessi skilningur öllu máli. Hversu mikið við skuldsetjum börnin okkar. Við eigum ekki að greiða þessa kröfu samkvæmt þýska textanum sem ég skil fullvel, og ef við neyðumst til þess vegna ofbeldis og ofureflis eða með vísan í óljósar alþjóðlegar skuldbindingar þá er fráleitt að við greiðum vexti á skuldina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka