Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að þegar framtíðarskipulag íslenska fjármálakerfisins verði dregið upp verði einhver fækkun fjármálastofnana frá því sem nú er. Hins vegar hefðu engar ákvarðanir verið teknar í þeim efnum.
Þá sagðist Gylfi einnig telja, að dregið verði úr umsvifum ríkisins á þessu sviði þegar frá líður. Hann sagðist jafnframt telja jákvætt, að erlendir kröfuhafar eignist hlutdeild í einhverjum bankanna en það sé ekki frágengið.
Gylfi var að svara fyrirspurn frá Ólöfu Nordal, þingmanni Sjálfstæðisflokks. Ólöf sagði, að sjálfstæðismenn styddu eindregið hverjar þær ráðstafanir, sem gripið verður til svo efla megi bankakerfið. Þá legði flokkurinn einnig áherslu á að allra leiða verði leitað til að sameina fjármálastofnanir.