„Við erum tilbúin að axla þá ábyrgð sem á okkur er sett en þá skulum við líka hafa það þannig að það séum við sem sjáum um að kjósa stjórnirnar.“ Þetta segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, um gagnrýni á hendur verkalýðsfélögum vegna þess sem miður hefur farið hjá lífeyrissjóðum.
Guðmundi finnst kominn tími til þess að allt kerfið verði endurskoðað. „Það hefur verið gagnrýnt í gegnum árin að framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins skuli tilnefna helming stjórnarmanna í lífeyrissjóði. Menn eru ekki sáttir við að sitja undir ávirðingum þegar vitað er að fulltrúar atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna hafa, í að minnsta kosti sumum tilfellum, haft mun meiri áhrif en aðrir á kjör stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og jafnvel hvert sjóðirnir hafa beint sínum viðskiptum og hlutabréfakaupum,“ segir Guðmundur en tekur þó fram um leið að sjálfsagt séu skiptar skoðanir um málið.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, ASÍ, segir að umræða um stöðu lífeyrissjóðanna hafi aukist í ljósi undanfarinna hremminga og þá meðal annars um fjárfestingastefnu þeirra, siðareglur um fjárfestingar og innri starfsemi. „Auðvitað verður í því samhengi umræða um hverjir sitja í stjórn. En lífeyrissjóðir byggjast á kjarasamningum og þessu verður ekki breytt nema með einhverjum slíkum aðgerðum.“
Guðmundur bendir á að eignir í lífeyrissjóðum séu algjörlega eign sjóðfélaga.
Halldór segir að út frá þeim rökum sé einfaldast og skynsamlegast að sjóðfélagar sjálfir ákveði hverjir stjórni þeim og hvernig farið sé með féð. „Hins vegar skiptir það kannski minna máli hverjir sitja í stjórn séu reglur um fjárfestingarstefnu og verklagsreglur um innri starfsemi skýrar. Lífeyrissjóðirnir hafa verið byggðir upp með sameiginlegri ábyrgð atvinnulífs og launþega.“