Nýir eigendur taka við Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins, í næstu viku. Á hluthafafundi í félaginu í gær var hlutafé fyrri hluthafa skrifað niður. Þar var jafnframt tekin ákvörðun um að nýir hluthafar legðu inn nýtt hlutafé, 300 milljónir króna að markaðsvirði.
Þórsmörk ehf. átti hæsta tilboð í Árvakur í febrúar, að loknu söluferli sem Íslandsbanki stýrði. Félagið er í eigu Óskars Magnússonar, lögmanns og fjárfestis.
Óskar sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að vinna nýrra hluthafa við yfirtöku á félaginu gengi samkvæmt áætlun og hluthafafundurinn í gær hefði verið mikilvægur áfangi í því. Stutt væri nú í að nýir eigendur tækju formlega við rekstri Árvakurs. Hluthafar með Óskari Magnússyni í Árvakri verða Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður og stjórnarformaður Olís, Guðbjörg Matthíasdóttir, sem er með fjölskyldu sinni aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja hf., Gunnar B. Dungal, fyrrverandi aðaleigandi Pennans, Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Vísis hf. í Grindavík, Þorgeir Baldursson, forstjóri Kvosar sem er móðurfélag prentsmiðjunnar Odda, og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Þá eru áform um að breikka hluthafahópinn enn frekar.