Þrír fyrrum starfsmenn Askar Capital eru grunaðir um brot á lögum og verklagsreglum bankans. Bankinn hefur sent tilkynningu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt henni varða brotin starfsemi í eigin félagi starfsmannanna án vitneskju bankans og tengjast fjármagnsflutningum fyrir hönd þriðja aðila á tímabilinu desember 2008 til mars 2009.
Heimildir Morgunblaðsins herma að starfsmennirnir þrír hafi í raun verið að færa fjármuni erlendis frá og öfugt á svig við þau gjaldeyrishöft sem eru við lýði á Íslandi. Um er að ræða færslur upp á tugi milljóna króna. Að einhverju leyti voru þeir að sýsla fyrir fyrrum viðskiptavini Askar Capital en inni í eigin félagi.
Á þeim tíma sem meint brot mannanna áttu sér stað var Milestone, eigandi Askar Capital, í endurskipulagningarferli hjá skilanefnd Glitnis. Um miðjan mars var síðan gengið frá því að allar íslenskar eignir Milestone væru settar undir Sjóvá, sem var ein helsta eign félagsins. Sjóvá verður mögulega selt á næstunni en ólíklegt er að eignir Askar fylgi með í þeirri sölu.