Reynsla síðustu ára hefur verið sú að þrátt fyrir fjöldasendingar mótmælabréfa vegna hvalveiðar Íslendinga hefur verið aukning í afurðasölu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og sömuleiðis í fjölda ferðamanna til landsins. Sama hefur mátt segja um auknar vinsældir hvalaskoðunar hér við land á sama tíma.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi við fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar.
Mörður spurði hvernig ráðherra meti þau viðbrögð, sem fram hafi komið eftir ákvörðun um endurupptöku hvalveiða, annars vegar frá fulltrúum fiskseljenda á mörkuðum erlendis og hins vegar af opinberri hálfu.
Í svarinu segir, að ráðherra hafi lýst yfir áhyggjum sínum af því hvaða áhrif hvalveiðar kunni að hafa og hafi því verið fylgst vel með viðbrögðum við þeim erlendis og hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafi tekið allar athugasemdir við hvalveiðar Íslendinga alvarlega og sent þeim sem mótmælt hafa svör og skýringar. Nú sé unnið í samstarfi við forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti að því að svara sérstaklega þeim erlendu viðskiptavinum, sem hafa lýst áhyggjum af hvalveiðum.
Þá kemur fram, að engin sérstök áróðursherferð sé ráðgerð til að kynna málstað Íslendinga varðandi hvalveiðar og litlu sé kostað til en sendiskrifstofur utanríkisráðuneytisins séu nýttar til verksins.