Hann er vandfundinn sá safnamaður sem líst vel á áform Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar um að einkavæða rekstur Byggðasafnsins í Görðum og Listasetursins Kirkjuhvols. Raunar hafa öll samtök safnamanna og safnamenn sem hafa tjáð sig um málið gagnrýnt samningsdrögin og vinnubrögð sveitarfélaganna, þó sérstaklega að ekkert samráð var haft við Safnaráð, menntamálaráðuneytið eða aðra safnamenn. Þá eru þeir andvígir því að rekstur byggðasafna sé færður til einkaaðila.
Í fyrradag sendi Ríkisendurskoðun fyrirspurn til bæjarins út af fyrirhugðum samningi auk þess sem málið er til skoðunar í menntamálaráðuneytinu.
Um 900 manns hafa skráð sig á Facebook-síðuna Björgum byggðasafninu og minnihlutinn á Akranesi boðar til bæjarmálafundar á mánudagskvöld til að ræða málið.
Margrét og Rakel hafna því alfarið að um persónulegar deilur sé að ræða eins og megi ráða af orðum bæjarstjórans. „Málið snýst ekki um persónulegan ágreining, málið snýst um að það er ekki við hæfi að einkavæða rekstur safns á þennan hátt, án nokkurs samráðs við Safnaráð og menntamálaráðuneytið. Þess vegna gerum við athugasemdir,“ sagði Margrét í samtali við Morgunblaðið í gær. Margrét líkt og fleiri safnamenn sem rætt var við segja undarlegt að skilja eigi bátakost safnsins frá rekstri byggðasafnsins, líkt og áform eru um og það sé algjörlega óljóst hver muni sjá um vörslu þeirra. Varðveisla bátanna væri flóknasta og erfiðasta verkefni safnsins. Margrét sagði að margt ylli henni áhyggjum í þessu máli, s.s. hvernig skráningu safngripa og varðveislu yrði háttað, gerð sýninga og faglegt starf safnsins. Þá brjóti samningurinn gegn alþjóðlegum siðareglum safna (ICOM). Yfirlýsing um annað í samningsdrögunum sé fyrirsláttur því það liggi fyrir að safnið verði rekið af einkafyrirtæki og það eitt og sér brjóti gegn siðareglum ICOM. Þar með geti safnið ekki fengið framlög úr safnasjóði og væntanlega ekki heldur úr ríkissjóði. „Þetta er menningararfur sem varðar alla þjóðina og það er ekki við hæfi að einkavæða slíkt,“ sagði Margrét.
Það væri að auki athugavert að þetta væri gert án útboðs.
Samningurinn um rekstur safnsins og listasetursins var ekki boðinn út og sagði Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi, að verkefnið væri ekki útboðsskylt. Hann hefði efasemdir um að útboð hefði skilað betri samningi. Spurður um varðveislu bátanna sagði Gísli að þeir hefðu lengi legið undir skemmdum og það væri ætlun bæjarins að koma þeim í varðveislu. Bærinn hefði hins vegar aðeins efni á að taka kútter Sigurfara í sundur og koma honum í trausta geymslu, lengra kæmist bærinn ekki að sinni.
Ekki sparnaður
Samkvæmt drögum að samningi Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar við Vætti um rekstur Byggðasafnsins að Görðum og Listasetursins Kirkjuhvoli ætlar Akranes að borga Vættum rétt um 30 milljónir króna á ári til að reka byggðasafnið. Sú upphæð fylgir vísitölu neysluverðs.Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Akraneskaupstaðar lagði bærinn safninu til tæplega 26 milljónir á árinu 2008. Við þá fjárhæð bætist rekstrarhalli og að teknu tilliti til hans eru upphæðirnar sambærilegar, að sögn Gísla S. Einarssonar. Gísli segir að fjárhagslegur ávinningur af samningnum felist í því að störfum fjölgi um 4-7 og að starfið verði mun öflugra en hingað til.
Í samningnum er kveðið á um að forvarsla og viðhald sýningargripa sé á kostnað sveitarfélaganna.