„Íslenska hagkerfið hefur kannski farið illa út úr storminum sem geisað hefur í efnahagslífinu síðustu sex mánuði, en fiskiðnaður landsins er enn á stöðugri siglingu.“ Þannig hefst frétt frönsku AFP fréttastofunnar í dag, sem segir frá því að sjómennskan þrífist vel í kreppunni á Íslandi.
AFP vitnar í Eirík Tómasson, framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Þorbjörns í Grindavík sem segir að þrátt fyrir hrun bankakerfisins og 9% atvinnuleysi sé ástandið ekki það versta sem þeir hafi upplifað. Krónan hafi vissulega hrapað um 44% gagnvart evrunni, en á móti skili hún meiri hagnaði fyrir útflutningsfyrirtæki eins og Þorbjörn sem eigi helst viðskipti við evrusvæðið og Bretland.
Það vekur einnig athygli AFP að meðal starfsmanna Þorbjörns sé fólk frá Póllandi, Filippseyjum og Marokkó sem sjái ekki ástæðu til að yfirgefa landið. „Það hefur ekkert breyst síðan kreppan skall á, við höfum ennþá alveg jafn mikið af fiski eins og áður,“ hefur blaðamaður eftir Ali Emandour, 37 ára gömlum Marokkómanni sem búið hefur á Íslandi í rúm tvö ár.
AFP greinir frá því að fiskiðnaðurinn sé lykilþáttur í efnahag Íslands þrátt fyrir heimskreppuna og eigi um 36% hlut í útflutningstekjum þjóðarinnar. Íslenskir sjómenn hafi á síðasta ári veitt mera en 1,3 milljón tonn af fiski og 90% af honum hafi verið seldur til útlanda.
Þá er það tekið fram að vegna kreppunnar hafi verið blásið til skyndikosninga á laugardag þar sem líti út fyrir að kjósendur hyggist refsa þeim flokki sem talinn sé ábyrgur fyrir hruninu á meðan stefni í að Evrópusinnaður samkeppnisflokkur muni hafa sigur.