Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem ætlað er að auðvelda útgreiðslu á innistæðum sparifjáreigenda hjá Kaupþingi í Þýskalandi.
Liðlega 30 þúsund sparifjáreigendur áttu alls um 330 milljónir evra inni á Edge-reikningum Kaupþings í Þýskalandi. Samsvarar það um 56 milljörðum króna. Nægilegt fé er til hjá fyrirtækinu til að standa undir þessum skuldbindingum.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að til þess að taka af allan vafa um að heimilt væri að greiða þetta fé út, áður en búið væri að lýsa öllum kröfum í búið, þyrfti að setja einfalt bráðabirgðaákvæði í lögin. Frumvarp verður nú lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna og síðan Alþingi.