Lokaði óvart fyrir bensínið

Á myndinni sést hvernig snúran hefur flækst í eldsneytiskrananum.
Á myndinni sést hvernig snúran hefur flækst í eldsneytiskrananum.

Flugmaður, sem var á ferð yfir Eyjafirði fyrir tveimur árum, þurfti að nauðlenda á Eyjafjarðarbraut þegar flugvélin missti afl. Í ljós kom, að snúra úr farsíma mannsins hafði flækst í eldsneytiskrana og lokað fyrir hann.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefnda flugslysa um málið, sem nú hefur verið birt.  

Flugmaðurinn var í lágflugi yfir flugvöllinn á Melgerðismelum í mars 2007. Þegar flugvélin var í um það bil 50 feta hæð yfir flugbrautinni fannst flugmanninum að snúra, sem tengd var úr farsímanum hans í
heyrnartólin, hefði flækst í einhverju. Flugmaðurinn togaði því kröftuglega í snúruna. Skömmu eftir það missti hreyfill flugvélarinnar skyndilega afl.

Flugmaðurinn beindi flugvélinni þá upp og náði um það bil 200 feta hæð. Hann ákvað síðan að nauðlenda flugvélinni á vegi sem framundan var og tókst lendingin vel.

Eftir lendinguna tók flugmaðurinn eftir því að skrúfað hafði verið fyrir eldsneytiskranann að mestu. Taldi hann sig í ógáti hafa skrúfað fyrir eldsneytiskranann með því að krækja farsímasnúrunni í hann og líklega lokað fyrir kranann með því að toga í snúruna.

Eftir að hafa skrúfað frá krananum aftur og fengið flugvirkja til þess að fullvissa sig um að hreyfillinn væri í lagi hóf flugmaðurinn flugvélina á loft frá veginum, í samráði við lögreglu, og flaug henni til flugvallarins á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert