Brotist var inn í hús við Vesturvang í Hafnarfirði í nótt á meðan fjölskyldan, sem þar býr, svaf. Að sögn Sigurðar Freys Árnasonar, sem býr í húsinu, var m.a stolið tölvum og myndavélum og einnig tösku sem í voru bíllyklar að Audi Q7 jeppa, sem stóð við húsið. Þjófarnir óku síðan brott í bílnum.
Sigurður Freyr sagði það óhuganlega reynslu að vakna við svona en enginn í húsinu hefði orðið var við mannaferðirnar í nótt. Þó væru ummerki um að farið hefði verið inn í barnaherbergin. Þjófavarnarkerfi er í húsinu en það var ekki í gangi.
Bíllinn, sem stolið var, er sem áður sagði af gerðinni Audi Q7 TDI, svartur að lit, með númerinu KM E00. Biður Sigurður þá, sem kunna að gera veitt upplýsingar um hvar bíllinn er niðurkominn eða um málið að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Að sögn lögreglunnar, sem fékk tilkynningu um innbrotið í morgun, hefur ekkert sést til bílsins enn.
.