Framhlaup virðist hafið í Breiðamerkurjökli en Jökulsárlón er þakið ísjökum. Slík hlaup eru þekkt í vissum jöklum en nokkuð er um liðið frá síðasta framhlaupi í Breiðamerkurjökli.
„Það er eitthvað að gerast í jöklinum sem ég held að sé óvenjulegt," segir Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. „Ég þori ekki alveg að fullyrða hvað það er þó mig gruni að þetta sé svokallað framhlaup en það hefur komið fyrir áður í þessum jökli. Þegar hann gengur skarpt út í jökulsárlón fyllist það af ís þannig að það er mjög lítið yfirborð af vatninu, t.d. fyrir báta."
Hann segir slík framhlaup einfaldlega í eðli jökulsins. „Sumir jöklar eru þessu eðli búnir og þetta hefur verið kunnuglegt síðastliðin 20 ár, t.d. í Skeiðarárjökli, Síðujökli, Tungnárjökli, Dyngjujökli og ýmsum fleiri jöklum. Framhlaupsjöklar gera þetta yfirleitt reglulega á nokkurra áratuga fresti. Það er dálítið síðan síðast var framhlaup í Breiðamerkurjökli, þ.a. það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart."
Að sögn Odds er ekki ljóst hvað orsakar þessa hegðun jöklanna. „Þetta er ein af ráðgátum jöklafræðinnar," segir hann og bætir því við aðspurður að þetta gerist burtséð frá hlýnun loftslagsins."
Hann segir framhlaup sem þessi oftast taka enda innan árs. „Það getur varað svo lengi en raunar höfum við ekki svo nákvæmar lýsingar á framhlaupi í Breiðamerkurjökli, svo við vitum ekki nákvæmlega hvað það tekur langan tíma fyrir hann að hlaupa fram." Hins vegar er óljóst hvenær framhlaupið í Breiðamerkurjökli hófst. „Þetta kom bara í ljós þegar ísa leysti í vor en mér skilst að menn hafi farið að taka eftir því að ísinn hefði aukist í lóninu síðastliðið sumar. Hins vegar var þetta ekki hafið síðastliðið vor."
Oddur svarar neitandi þegar hann er spurður hvort hætta sé á að brúin við lónið, sem tengir þjóðveg 1, gefi sig vegna ruðningsins. „Ég held að þessi atburður hafi ósköp lítil áhrif á brúna og kringumstæður þar."