Gríðarleg umferð er nú út úr bænum en hefur hún að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins gengið vel fyrir sig. Straumurinn liggur bæði austur og suður fyrir.
Góð veðurspá og þá sérstaklega fyrir norðan og austan virðist hafa haft þau áhrif að mikill fjöldi íbúa höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að leggja land undir fót.
Lögregla höfuðborgarsvæðisins segir að mikil umferð hafi verið út úr bænum í allan dag og sé hún ekkert farin að þynnast.
Allt hefur þó gengið mjög vel fyrir sig og ekkert verið um óhöpp. Umferðin sé hæg en þó lítið um teppur.
Lögreglan á Selfossi tekur undir það að mikil umferð hafi verið í allan dag og hafi verið sérlega þétt síðastliðna klukkustund. Ekki var búist við því að umferð færi að minnka fyrr en um níu leytið.
Sagði lögreglan að þótt umferðin í dag slægi kannski ekki út verslunarmannahelgina væri ljóst að þetta yrði mikil ferðahelgi. Lá straumurinn bæði í uppsveitir Árnessýslu eða áfram í Rangárvallasýslu.
Veðurstofa Íslands spáir á morgun hægri austlægri átt eða hafgola og skýjuðu á köflum eða léttskýjuðu. Þokuloft geti þó verið víða með austur- og norðurströndinni. Samkvæmt Veðurstofunni getur hitinn verið prýðilegur, eða milli 10 og 22 stig, hlýjast inn til landsins.
Á sunnudag er spáin svipuð en þó er hætt við síðdegisskúrum. Spáð er fimmtán til tuttugu stiga hita, mest inn til landsins en svalara við sjóinn.