Fréttaskýring: Ógna einkaskólar ekki jöfnuðinum?

Börn við nám
Börn við nám Þorkell Þorkelsson

Grunn- og framhaldsskólar eru ýmist opinberir eða einkareknir, víða um heim koma trúfélög við sögu þeirra einkareknu en einnig frjáls félagasamtök sem vilja geta fylgt eftir eigin kenningum í skólastarfi. Á Norðurlöndunum eru skólarnir flestir reknir af opinberum aðilum, m.a. hér á landi.

Jafnaðarmenn voru áratugum saman lang-öflugasta stjórnmálafylkingin á flestum Norðurlandanna. Þeir töldu aðeins vera hægt að tryggja jafnræði til náms með því að skólar væru almennt í opinberri eigu og rekstri. Nóg væri samt um mismunun í þjóðfélaginu vegna efnahags þótt börnin yrðu ekki líka að sætta sig við verri skóla en börn efnamanna. Eitt yrði yfir alla að ganga í skólunum.

En hægrimenn bentu á að ríkisrekstrinum fylgdu ákveðnir gallar: foreldrar hefðu lítið sem ekkert val þar sem skólarnir væru óhjákvæmilega einsleitir. Hvers vegna ekki að leyfa foreldrum sjálfum að forgangsraða og ákveða t.d. að sleppa dýrum utanlandsferðum og öðrum munaði til að geta greitt skólagjöld?

Umskiptin árið 1992

Stjórn borgaraflokkanna, sem þá var við völd í Svíþjóð, kom á kerfi 1992 þar sem einkareknir skólar fengu framlög frá sveitarfélögunum eins og opinberu skólarnir. Árið 2007 gengu 7% sænskra grunnskólabarna í einkaskóla og 13% menntaskólanema. Vinstrimenn voru lítt hrifnir 1992 og beittu þeim hefðbundnu rökum sem áður voru nefnd.

En á fimmtudag birtist opið bréf frá sex ungum sveitarstjórnarmönnum úr röðum jafnaðarmanna í blaðinu Dagens Nyheter. Þar er hvatt til þess að á flokksþingi í haust verði það liður í endurskoðun stefnunnar í menntamálum að hætta að líta á einkarekna skóla sem ógnun og keppinauta við opinberu skólana. Jafnaðarmenn verði að höfða til kjósenda sem flokkur er vilji auka valmöguleika almennings.

Móta verði skólastefnu með áherslu á meiri metnað og rétt nemenda til góðrar menntunar. En stefnan verði einnig að ná til einkaskólanna. Þeir muni ekki hverfa af sviðinu. „Umbæturnar á einkaskólunum sem gerðar voru snemma á tíunda áratugnum voru mótaðar með þeim hætti að tryggður er jafn aðgangur allra að þeim og fjármögnun,“ segir í bréfinu. „Öll börn geta, hvað sem líður fjárhag foreldranna og hvaðan sem þau eru, valið einkaskóla. Einkaskólarnir eru því ekki nein ógnun við almenna grunnskólann sem við jafnaðarmenn metum svo mikils.“

Bréfritarar segja að margir opinberir skólar tryggi ekki öllum nemendum jafnan rétt, það gerist ekki síður þar en í einkaskólum. Rekstrarformið sé ekki ógnun heldur skipti máli að allir skólar fái nóg fjármagn og því sé skipt með réttlátum hætti. Sveitarfélögin þurfi að fá meira vald til að fylgjast með starfi jafnt opinberra skóla sem einkaskóla. En þau eigi ekki að stýra daglega starfinu í smáatriðum, aðeins tryggja að þeir mennti börnin.

Mega vel græða

SEXMENNINGARNIR, fjórir karlar og tvær konur, vilja að sveitarfélögin geti ráðið því hvaða einkaskólar fái að starfa en ráðamenn skólanna geti þó áfrýjað til æðri yfirvalda. En er í lagi að eigendur græði á rekstrinum?

„Það er álitið slæmt að hagnast á starfsemi sem fjármögnuð er af samfélaginu. Við eigum samt erfitt með að sjá hver meiningin er með því að það sé réttlætanlegt að hagnast á því að reisa skóla en ekki því að reka hann. Skattpeningar eru notaðir til að greiða fyrir hvorttveggja,“ segir í opna bréfinu.

Foreldrar muni ekki velja handa börnum sínum skóla sem greiði hluthöfum svo mikinn hagnað að það komi niður á skólastarfinu. Og sé lagt bann við gróða muni einvörðungu sveitarfélög eða stórfyrirtæki, sem kunni að fara í kringum skattareglur, geta rekið skóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka