Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs samþykkti í gær viljayfirlýsingu um ramma hugsanlegrar samvinnu við PrimaCare um uppbyggingu á heilsutengdri starfsemi í sveitarfélaginu. PrimaCare undirbýr nú byggingu einkasjúkrahúss til mjaðma- og hnjáaðgerða.
Bæjarfulltrúarnir lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir að starfa með forsvarsmönnum PrimaCare að verkefninu. Einnig að þeir séu tilbúnir að útvega verkefninu nauðsynlegt land og hafa fjórir hektarar verið nefndir í því samhengi.
Verði af formlegum samningaviðræðum milli sveitarfélagsins og PrimaCare verður gert sérstakt samkomulag um afhendingu landsins og gjöld til sveitarfélagsins.
Þá eru bæjarfulltrúarnir einnig reiðubúnir að aðstoða við að koma verkefninu á fót. Viljayfirlýsingin gildir til 7. september 2011.
Samkvæmt heimildum mbl.is er rætt um að á einkasjúkrahúsi því sem PrimaCare hyggst reisa verði um 70 einkastofur. Reist verði 50-60 herbergja hótel í tengslum við sjúkrahúsið og rannsóknastofa. Talað er um að á sjúkrahúsinu verði gerðar allt að 3.000 aðgerðir á hnjám og mjöðmum á ári.