Skýrslur vegna rannsóknar á Q Iceland Finance ekki afhentar

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu þriggja sakborninga í rannsókn embættis sérstaks saksóknara vegna kaupa Q Iceland Finance á hlut í Kaupþingi, um að fá afhent endurrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af öðrum sakborningum og vitnum í málinu.

Hæstiréttur taldi að lagaskylda til að afhenda afrit skjala máls  næði einungis til afrita af skjölum í pappírsformi en ekki til eftirgerðar af öðrum gögnum hvort heldur væru hljóð- eða mynddiskar. 

Fimm hæstaréttardómarar dæmdu í málunum. Einn þeirra, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði sératkvæði og vildi fella úrskurð héraðsdóms úr gildi og veita mönnunum aðgang að gögnunum.

Endurritun hefur dregist

Embætti sérstaks saksóknara rannsakar nú kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. á árinu 2008. Skýrslur af sakborningum og vitnum í málinu voru teknar upp í hljóði og mynd. Saksóknaraembættið i tók þá ákvörðun að yfirheyrslurnar yrðu endurritaðar orðrétt en endurritun hefur dregist.

Verjendur sakborninganna þriggja óskuðu eftir því í ágúst að fá afhent afrit af öllum rannsóknargögnum málsins sem höfðu bæst við eftir afhendingu rannsóknargagna 2. júlí. Þann 13. ágúst voru gögnin afhent að undanskildum afritum af skýrslum á hljóð- og mynddiskum af sakborningum og vitnum. 

Verjendum var boðin aðstaða til að kynna sér upptökur af öðrum yfirheyrslum og taldi saksóknari að með þessu hefði hann uppfyllt skyldu sína samkvæmt lögum.  Þá var verjendum tilkynnt að saksóknari hefði í hyggju að afhenda skýrslur af sakborningum og vitnum í endurriti eftir því sem þau yrðu til.

Með bréfi 17. ágúst kröfðust verjendur þess, að héraðsdómur úrskurðaði um skyldu saksóknara til að afhenda sér afrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af öðrum sakborningum og vitnum í málinu. Þessu höfnuðu héraðsdómur og Hæstiréttur.

Fram hefur komið í fréttum Morgunblaðsins af rannsókn málsins, að fyrrum stjórnendur Kaupþings og fyrrum forsvarsmenn félagsins Q Iceland Finance hafa fengið stöðu grunaðra í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert