Fjármálaráðherra Rússlands, Alexei Kudrin, segir að rússnesk og íslensk stjórnvöld hafi ekki komist að samkomulagi um mögulegt lán Rússa til Íslendinga. Kudrin átti fund með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í Istanbúl í dag.
„Samningaviðræðurnar halda áfram,“ hefur rússneska fréttastofan RIA Novosti eftir Kudrin.
Hann segir jafnframt að Rússar og Íslendingar verði að halda fleiri fundi til að fara betur yfir stöðu íslenskra efnahagsmála.
Rússar eru sagðir vera að íhuga að lána Íslendingum 500 milljónir dala (um 62 milljarða kr.).