Mannabreytingar í utanríkisþjónustunni

Tómas Ingi Olrich mun láta af störfum um næstu mánaðamót.
Tómas Ingi Olrich mun láta af störfum um næstu mánaðamót. mbl.is/Jim Smart

Talsverðar mannabreytingar eru og munu taka gildi í íslensku utanríkisþjónustunni á næstunni. Nokkrir sendiherrar munu láta af störfum og nýir taka við. M.a. mun Tómas Ingi Olrich, sendiherra Íslands í Frakklandi, láta af störfum um næstu mánaðarmót vegna aldurs.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu mun Þórir Ibsen, fyrrum skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, taka við sendiherrastöðunni.

Þá verða breytingar í íslenska sendiráðinu í Helsinki í Finnlandi. Hannes Heimisson sendiherra mun snúa aftur til Íslands til að starfa hjá utanríkisráðuneytinu. Elín Flygenring, sem var fastafulltrúi hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassbourg, mun taka við sendiherrastöðunni í Helsinki. Fastanefndinni hefur verið lokað.

Sveinn Björnsson, sendiherra Íslands í Vín í Austurríki, mun láta af störfum vegna aldurs. Við honum tekur Stefán Skjaldarson.

Breytingarnar í Helsinki og Vín eru að taka gildi þessa dagana.

Guðmundur Eiríksson, sem hefur starfað í utanríkisráðuneytinu, mun taka við embætti sendiherra Íslands á Indlandi 1. nóvember. Sendiráðið hefur verið sendiherralaust í nokkra mánuði. Gunnar Pálsson, sem var sendiherra á Indlandi, fór fyrir nokkru til New York, þar sem hann er nú fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Þá hefur komið fram að Benedikt Jónsson, sem verið hefur ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, hefur tekið við sendiherrastöðunni í London. Sverrir Haukur Gunnlaugsson, fyrrverandi sendiherra í London, fer til Brussel þar sem hann mun starfa hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).

Þá má minnast þess að í apríl sl. lokaði sendiráði og fastanefnd Íslands í Róm. Jafnframt er búið að loka sendiráðinu í Pretoríu í Suður-Afríku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert