Séra Jón Helgi Þórarinsson, sóknarprestur í Langholtskirkju, telur æskilegt að tekinn verði upp þakkargjörðardagur í íslensku kirkjunni. Auk þess að þakka ætti að nota daginn til að hugleiða hvernig við umgöngumst gjafir Guðs, auðævi jarðar til lands og sjávar.
„Ég tel æskilegt að koma á sérstökum þakkargjörðardegi að hausti í íslensku kirkjunni, a.m.k. að hver söfnuður hefði slíkan dag þegar haustið er gengið í garð,“ skrifar séra Jón Helgi í pistli á síðunni tru.is.
„En því til viðbótar ættum við einnig að íhuga á þessum degi ábyrgð okkar á því að fara vel með gjafir Guðs, auðæfi jarðar til lands og sjávar sem og í lofti.
Það er íhugunarefni sem kristin kirkja verður að gefa æ meira rými í predikun og fræðslu, enda mjög afdrifaríkt fyrir mannkyn allt og framtíð okkar hér á jörðu hvernig tekst að stýra þeim málum næstu áratugi.“