Dæmdur nauðgari ekki í haldi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð héraðsdóms, um að maður sem í sumar var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 4½ árs fangelsi fyrir nauðgun, sæti gæsluvarðhaldi þar til mál hans verður tekið fyrir í Hæstarétti. Ástæðan er sú að óhæfilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu dómsgerða frá héraðsdómi.

Maðurinn var handtekinn í maí, grunaður um að hafa nauðgað konu í húsasundi í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Konan fékk fjölmarga áverka á líkama og höfði við árásina.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í maí og í júlí dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur manninn í 4½ árs fangelsi.  Maðurinn áfrýjaði dómnum þegar í júlí en ákæruvaldið krafðist þess að maðurinn sætti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þar til dómur félli í Hæstarétti.

Fallist var í ágúst á kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. október. Héraðsdómur féllst síðan í síðustu viku á kröfu um framlengingu gæsluvarðhaldsins fram í desember en Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi í dag. 

Hæstiréttur vísar til þess, að lögð hafi verið fram gögn sem sýni, að ríkissaksóknari óskaði strax 16. júlí eftir dómsgerðum í máli mannsins. Þau gögn hafi hins vegar ekki borist ríkissaksóknara þó að hálfur fjórði mánuður sé liðinn frá því óskað var eftir þeim. Engin haldbær skýring sé komin fram á þessum drætti.

Þetta hafi meðal annars haft þau áhrif að málið sé ekki komið á dagskrá Hæstaréttar. Heimild til að beita gæsluvarðhaldi sé undir því komin að ekki verði óhæfilegur dráttur á meðferð máls. Sá dráttur sem orðinn sé á afgreiðslu dómsgerða í máli mannsins sé óhæfilegur, þegar höfð sé hliðsjón af því að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi. Verði því ekki hjá því komist að fella gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi.

Hæstiréttur dæmdi manninn þess í stað í farbann til 22. desember.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert