Lokið er mati á uppskerubresti hjá kartöflubændum í Þykkvabænum vegna þess að kartöflugrös féllu vegna næturfrosts í lok júlí í sumar.
Í meðalári hefði uppskeran átt að verða um 5.500 tonn en hún varð rétt um helmingur þess. Því vantar a.m.k. 2.500 tonn upp á meðaluppskeru.
Slegið var á það í sumar, að tekjutap kartöflubænda gæti numið allt að 250 milljónum króna. Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, segir að enn vanti gögn til að hægt sé að áætla tapið nákvæmlega.
Bjarni Jónsson reiknar með því að þrátt fyrir uppskerubrestinn muni íslenskar kartöflur verða á boðstólum í verslunum fram í mars á næsta ári. Munar þar mestu að uppskera í Eyjafirði var í góðu meðallagi og uppskeran hjá bændum í Hornafirði var vel yfir meðallagi.