Gerði úttekt á Varnarmálastofnun

Varnarmálastofnun í Reykjanesbæ.
Varnarmálastofnun í Reykjanesbæ.

Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á nokkrum ákvörðunum Varnarmálastofnunar á sviði mannaráðninga og innkaupa en utanríkisráðuneytið óskaði eftir því í sumar, að Ríkisendurskoðun kannaði hvort stofnunin hefði brotið gegn lögum og hvort fjölskyldu- og vinatengsl kunni í einhverjum tilfellum að hafa valdið vanhæfi.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem utanríkisráðuneytið hefur nú birt, er fjallað um tímabundnar mannaráðningar án auglýsinga og kaup Varnarmálastofnunar á símkerfi,  rafjöfnunarbúnaði og dráttarvél, sem öll fóru fram án undangengins útboðs.

Ráðuneytið taldi vafa leika á að samráð hefði verið haft um ráðningar nokkurra starfsmanna stofnunarinnar en Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hafi misskilið  upplýsingar um ráðningarnar.

Þá óskaði utanríkisráðuneytið eftir því að farið yrði yfir kaup á Varnarmálastofnunar á ýmsum búnaði, sem ákveðin voru án útboðs. Stofnunin keypti símkerfi fyrir 16 milljónir króna eftir að fjögur kerfi voru valin til skoðunar. Utanríkisráðuneytið óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun kannaði hvort fjölskyldu- eða vinatengsl kunni að hafa valdið vanhæfi við afgreiðslu málsins en staðfest var að forstjóri Varnarmálastofnunar er mágkona framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem á endanum seldi stofnuninni kerfið. 

Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að forstjórinn sagði sig frá málinu þegar ljóst var að fyrirtæki mágs hennar kom til greina. Ríkisendurskoðun segir, að ekki sé dregið í efa að forstjórinn sagði sig frá málinu en þar sem sú afgreiðsla hafi hvorki verið skjalfest hjá stofnuninni né utanríkisráðuneytið látið vita fyrir kaupin liggi hvorki fyrir með óyggjandi hætti hvenær forstjórinn sagði sig frá málinu né hver tók við tilkynningu um það.  

Utanríkisráðuneytið vildi einnig láta kanna kaup á rafjöfnunarbúnaði upp á 38 milljónir króna, en framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem seldi búnaðinn, en fyrrverandi yfirmaður forstjóra og nokkurra annarra stjórnenda Varnarmálastofnunar.

Ríkisendurskoðun telur, að forstjóri og aðrir stjórnendur stofnunarinnar hafi ekki verið vanhæfir til að fjalla um kaupin en tengsl umræddra aðila séu þó þess eðlis, að gera verði ríkari kröfur til gagnsæis innkaupaferilsins en annars væri.

Þá skoðaði Ríkisendurskoðun kaup á notaðri dráttarvél. Ríkisendurskoðun segir að Varnarmálastofnun hefði átt að leita álits Ríkiskaupa en líklegt sé að  til þess bær yfirvöld hefðu komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri  um útboðsskyldu að ræða þar sem verð á dráttarvélinni hafi sannanlega verið niðursett.

Utanríkisráðuneytið hefur að svo stöddu beint því til Varnarmálastofnunar að taka tillit til niðurstaðna Ríkisendurskoðunar í starfsemi sinni.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert