Allar líkur eru á því að óánægðir kröfuhafar muni láta reyna á neyðarlögin fyrir dómi á næstu 3-6 mánuðum. Þar sem varnarþing íslenska ríkisins sé hér á landi munu málin fara fyrst fyrir héraðsdóm og þaðan til Hæstaréttar sem á endanum mun skera úr um lögmæti neyðarlaganna sem settu innstæður í forgang. Ekki er útilokað að á öðru hvoru dómsstiginu verði kallað eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum. Jafnframt megi reikna með að málinu verði skotið til Mannréttindadómstólsins þegar niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir.
Að mati þeirra lögspekinga sem Morgunblaðið ræddi við, sem allir starfa við lagadeild Háskóla Íslands eða Háskólans í Reykjavík, gæti tekið ½-3 ár að reka málið fyrir íslenskum dómstólum. Bentu þeir á að málið gæti komið fyrir íslenska dómstóla með margvíslegum hætti, þó aðallega í því formi að einhverjir kröfuhafar, sem telja sig ekki hafa fengið það sem þeim bar, sætti sig ekki við niðurstöðu slitastjórnar sem þá er skylt að skjóta þeim ágreiningi til dómstóla. Um slík ágreiningsmál vegna gjaldþrotaskipta gildir flýtimeðferð, sem þýðir t.d. að kærufrestur til Hæstaréttar er aðeins 14 dagar.
Illskásti kosturinn í stöðunni
Inntir eftir því hvernig íslenska dómskerfið sé í stakk búið til þess að taka á slíku máli voru lögspekingarnir sammála um að það ætti að vera vel í stakk búið til þess, en þó væri ljóst að málið myndi krefjast mikils undirbúnings bæði af hálfu lögmanna sem og dómara. Ekki mætti heldur líta fram hjá því að álagið á dómkerfinu í heild muni aukast til muna á næstunni þar sem reikna megi með að mörg hundruð álitamál af ýmsu tagi frá slitastjórnum muni enda fyrir dómstólum. Því sé spurning hvort dómarar hérlendis séu nógu margir til þess að sinna þeim fjölda mála sem von sé á.Viðmælendur Morgunblaðsins vildu ekki leggja mat á það hvort líkur væru til þess að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin stæðust ekki, enda enn ekki ljóst á hvaða réttarheimild verði byggt. Bentu þeir á að teflt hefði verið fram sterkum rökum á báða bóga. Rökin fyrir setningu neyðarlaganna snúi m.a. að því að þau hafi verið eina færa leiðin til þess að setja íslensku bankana í skjól og sporna við allsherjar kerfishruni. Hefði bankakerfið í reynd hrunið til grunna á sínum tíma hefðu allir kröfuhafar misst allt sitt þar sem eignir hefðu ónýst. Þannig hafi neyðarlögin verið illskásti kosturinn við þær erfiðu kringumstæður sem ríkt hafi fyrir ári.
Helstu rök kröfuhafa snúa hins vegar að annars vegar að jafnræðisreglu og eignarrétt íslensku stjórnarskrárinnar og hins vegar jafnræðisreglu evrópréttarins. Enginn viðmælenda þorði að spá fyrir um hverjar afleiðingarnar yrðu héldu neyðarlögin ekki. Menn voru hins vegar sammála um að það myndi hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið og kalla á skuldbindingar sem gætu reynst íslensku þjóðarbúi mjög erfiðar.