Blaðamannafélög á hinum Norðurlöndunum hafa áhyggjur af þróun fjölmiðla hérlendis. Fjölmörgum blaða- og fréttamönnum hafi verið sagt upp í kjölfar niðurskurðar eða gjaldþrota.
Í mörgum tilfellum hafi blaða- og fréttamönnum með mikla reynslu verið sagt fyrirvaralaust upp sem sé mikið áhyggjuefni, enda hafi aldrei verið meiri þörf á gagnrýnni hugsun en nú. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttatilkynningu sem forsvarsmenn félaganna hafa sent frá sér og greint er frá á vef norska ríkissjónvarpsins.
Forsvarsmenn norrænu blaðamannafélaganna undirstrika mikilvægi þess að íslenskir fjölmiðlar viðhaldi sjálfstæði sínu í kjölfar efnahagshrunsins. Fjölmiðlarnir verði að geta upplýst almenning um hvað gerðist og hvað valdhafar séu nú að gera.
Að mati þeirra sem fréttatilkynninguna rita er staða Morgunblaðsins, elsta dagblaðsins á Íslandi, sérlega alvarleg. Þar hafi eigendur ráðið Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra landsins sem var Seðlabankastjóri þegar efnahagur landsins hrundi, í ritstjórastólinn. Hann sæti nú rannsókn fyrir þátt sinn í íslenska efnahagshruninu.
Auk þess lýsa talsmenn norrænu blaðamannafélaganna yfir þungum áhyggjum af þeirri meðferð sem þeir sem gegni trúnaðarstörfum fyrir íslenska blaðamenn fái. Þannig hafi bæði núverandi og fyrrverandi formenn Blaðamannafélags Íslands, sem og einn núverandi stjórnarmanna verið fyrirvaralaust reknir úr störfum sínum á fjölmiðlum landsins á afar stuttum tíma.
Fram kemur á vef NRK að Norræna blaðamannasambandið undirbúi í samvinnu við Blaðamannafélag Íslands ráðstefnu hér á landi um tjáningarfrelsi, hlutverk fjölmiðla og fyrirkomulag fjölmiðlastyrkja á Norðurlöndunum.