Öryggismál, vernd hafsins og menningarsamstarf verða efst á baugi í Norðurlandaráði, að sögn Helga Hjörvar forseta Norðurlandaráðs. Ísland tók við formennsku í Norðurlandaráði um áramótin. Helgi var kjörinn forseti Norðurlandaráðs á Norðurlandaráðsþingi í október s.l. og Illugi Gunnarsson varaforseti.
„Íslendingar munu leggja áherslu á öryggismál almennt", sagði Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs 2010, í samtali við vef Norðurlandaráðs. Hann sagði og að unnið verði að samstarfi í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og mansali, hefðbundnu samstarfi í öryggismálum eins og þau eru skilgreind í Stoltenberg skýrslunni og síðast en ekki síst öryggi í efnahagsmálum, sem er mjög aðkallandi öryggismál ein og komið hefur í ljós.
„Auk áherslu á öryggismál, munu Íslendingar beina sjónum að verndun hafsins, meðal annars í Eystrasaltssamstarfinu og í samstarfi um verndun viðkvæmra vistkerfa Norður-Atlantshafsins.
Þá verða menning og tungumálasamstarf mikilvæg þemu í formennskuverkefnum Íslendinga í Norðurlandaráði,“ að því er segir í frétt Norðurlandaráðs.