Hollenska dagblaðið Volkskrant segir á vef sínum að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslands, sé á milli tveggja elda eftir að forseti Íslands skrifaði ekki undir Icesave-lögin. Hefur blaðið eftir Steingrími að þetta sé ekki sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hafi vonast til en þetta sé stjórnarskrárbundinn réttur forsetans.
Steingrímur bendir á að Íslendingum finnist óásættanlegt að þurfa að greiða fyrir mistök nokkurra íslenska bankamanna og á sama tíma séu stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi ósátt við að þeirra skattgreiðendur þurfi að greiða fyrir skaðann sem Icesave hefur valdið.
Breski og hollenski fjármálaráðherrann, þeir Alistair Darling og Wouter Bos segja að íslenskir skattgreiðendur eigi einir að bera skaðann af hruni Icesave. Hins vegar bendi Steingrímur á að það sé ekki borðliggjandi enda hafi sambærilegt ástand aldrei áður skapast, að allir bankar lands þurrkist út. Er það réttmætt að láta lítið land bera slíkar byrðar.
Volkskrant segir að Bos og Darling hafi nýtt áhrif sín hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að þrýsta á Ísland að ganga frá Icesavesamningnum. Ef Ísland greiði ekki Icesave þá fáist ekki lán frá AGS.