Ríkisstjórnin héldi velli

Ríkisstjórnin og forseti Íslands á ríkissráðsfundi á Bessastöðum
Ríkisstjórnin og forseti Íslands á ríkissráðsfundi á Bessastöðum mbl.is/Ómar

Stuðningur við Vinstri græn eykst verulega samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Fylgi við Samfylkinguna minnkar, en stjórnarflokkarnir myndu halda meirihluta yrðu niðurstöður kosninga í samræmi við útkomuna í könnuninni.

Stjórnarflokkarnir mælast með stuðning 53,2 prósenta kjósenda samkvæmt könnuninni. Flokkarnir fengju 34 þingmenn kjörna samkvæmt könnuninni, jafn marga og þeir eru með í dag, en tveir þingmenn myndu færast frá Samfylkingunni til Vinstri grænna yrðu þetta niðurstöður þingkosninga.

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkurinn, og fengi atkvæði 31,1 prósents kjósenda væru niðurstöður kosninga í samræmi við könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn fékk 23,7 prósenta fylgi í síðustu þingkosningum og 16 þingmenn, en fengi 20 þingmenn samkvæmt könnuninni.

Í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem gerð var 15. október síðastliðinn, mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 34,8 prósenta fylgi. Stuðningur við flokkinn hefur því minnkað um 3,7 prósentustig milli kannana.

Samfylkingin tapar um tveimur prósentustigum frá síðustu könnun. Flokkurinn mælist nú með stuðning 28,7 prósenta kjósenda, en fékk 29,8 prósent atkvæða í þingkosningum síðasta vor.

Samfylkingin er með 20 þingmenn í dag, en fengi 18 þingmenn samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Fylgi flokksins mældist 29,8 prósent í könnun blaðsins í október.

Vinstri græn bæta við sig 5,4 prósentustiga fylgi og fengi 24,6 prósent atkvæða ef kosið yrði nú. Flokkurinn fékk 21,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum, og er því umtalsverð yfir kjörfylgi.

Í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins mældust Vinstri græn með 19,2 prósenta fylgi, og bæta sig því verulega milli kannana, eða um rúman fjórðung.

Vinstri græn eru nú með 14 þingmenn, en bættu við sig tveimur yrðu niðurstöður kosninga í takt við nýja könnun Fréttablaðsins.

Framsóknarflokkurinn stendur því sem næst í stað frá síðustu könnun. Flokkurinn mælist með stuðning 13,7 prósenta kjósenda, en fékk 14,8 prósent í síðustu þingkosningum.

Í síðustu könnun Fréttablaðsins mældist flokkurinn með 14,1 prósents fylgi. Framsóknarflokkurinn er með níu þingmenn í dag og myndi halda þeim öllum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka