Ásta Möller hefur verið ráðin forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og hefur þar störf í vikunni. Hún mun jafnframt hefja kennslu í stjórnmálafræðideild nú á vormisseri.
Ásta lauk BSc námi í hjúkrunarfræði 1980 og meistaranámi MPA-í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún var alþingismaður og varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 1999-2009. Þar átti hún m.a. sæti í fjárlaganefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd, en hún var formaður heilbrigðisnefndar 2007-2009.
Hún var formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins 2005-2009 og var kjörin í stjórn framkvæmdastjórnar sambandsins 2008. Hún var formaður félaga íslenskra hjúkrunarfræðinga 1989-1999 og varaformaður Alþjóðasamtaka hjúkrunarfræðinga 2001-2005. Ásta Möller hefur ennfremur starfað við hjúkrun, stjórnun og kennslu á heilbrigðisstofnunum. Hún var settur aðjúnkt í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands 1982-1984, að því er segir í tilkynningu.
Ásta hefur átt sæti í mörgum nefndum á vegum stjórnvalda í opinberri stefnumótun og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn m.a. í miðstjórn og framkvæmdastjórn og er nú formaður velferðarnefndar flokksins.
Ásta Möller tekur við af Margréti S. Björnsdóttur, sem hefur verið forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða frá árinu 2002. Margrét hefur verið ráðin aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ og mun áfram sinna verkefnum fyrir stofnunina.
Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun sem starfrækt er af stjórnmáladeild Háskóla Íslands, í samstarfi við Reykjavíkurborg.