Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, staðfesti í samtali í gær að hann hefði sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands átt fund með Nout Wellink, seðlabankastjóra Hollands, í fyrri hluta september árið 2008. Fundurinn var haldinn í Basel að frumkvæði Wellink.
Um trúnaðarfund var að ræða en þar sem Wellink hefur nú greint frá þessu samtali opinberlega fyrir þingnefnd hollenska þingsins segist Davíð geta staðfest ummæli hans.
„Hann spurði mig álits á stöðu bankakerfisins á Íslandi,“ segir Davíð um samtal hans og Wellinks. „Ég sagði honum að ég hefði af því mjög miklar áhyggjur, sem lægi í augum uppi, því þá höfðu allir aðdrættir að endurfjármögnun bankakerfisins verið stíflaðir í 13 mánuði,“ segir hann.