Að því gefnu að Icesave-deilan verði til lykta leidd og þar af leiðandi nægur gjaldeyrisforði til staðar ætti því að vera hægt að leysa höft af fjármagnshreyfingum tengdum viðskiptum með langtímaskuldabréf tiltölulega fljótlega. Þetta segir viðskipta- og efnahagsráðherra í skriflegu svari sínu.
Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði ráðherrann út í jöklabréf og gjaldeyrishöft. Meðal annars hvort höftin komi í veg fyrir greiðslur úr landi vegna jöklabréfa sem eru komin á gjalddaga og hvernig eftirlitinu með þessum málum háttað.
Í skriflegu svari Gylfa Magnússonar, viðskipta- og efnahagsráðherra, segir að andvirði jöklabréfa sem fallið hafa á gjalddaga liggi að miklu leyti inni á krónureikningum í erlendum bönkum eða sé bundið í innlendum skammtímabréfum. Höftin koma í veg fyrir að hægt sé að skipta andvirði eignanna í erlendan gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði.
Jafnframt að Seðlabankinn hafi komið upp gjaldeyriseftirliti sem starfi sem sjálfstæð eining innan bankans og heyri beint undir seðlabankastjóra. Gjaldeyriseftirlitið starfi náið með öðrum sviðum bankans.
Eftirlitið hefur verið eflt mjög að undanförnu um leið og fyrstu skrefin í þá átt að leysa höftin eru undirbúin. Frumskoðun á meintum brotum fer fram á vegum gjaldeyriseftirlitsins, en komi fram rökstuddur grunur um saknæmt athæfi er málið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu sem tekur ákvörðun um hvort málið verður kært til lögreglu eða stjórnvaldssektum beitt.
Viðurlög við broti á reglum um gjaldeyrismál eru sektir eða fangelsi allt að tveimur árum. Þá getur Fjármálaeftirlitið ákveðið sektir vegna brota einstaklinga frá 10 þúsund krónum til 20 milljóna króna og vegna brota lögaðila frá 50 þúsund krónum til 75 milljóna króna.
Jafnframt er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál.
Ráðherra var einnig spurður út í hvernig hann hyggst beita sér fyrir því að leysa málefni tengd jöklabréfum þannig að hægt verði að losa um gjaldeyrishöftin.
Svarar hann því til að engin mál séu útistandandi varðandi svokölluð jöklabréf, þ.e. skuldabréf sem gefin voru út erlendis af erlendum aðilum og að mestu leyti seld erlendum fjárfestum. Fyrrnefndar innstæður erlendra aðila séu hins vegar afsprengi útgáfu svokallaðra jöklabréfa.
Ráðherra bætir því við að í áætlun Seðlabankans um afnám haftanna sé gert ráð fyrir því að hömlum verði aflétt fyrst á ákveðnum flokkum langtímaskuldabréfa. Gera megi ráð fyrir að innan tíðar verði ákveðnir flokkar langtímaskuldabréfa að mestu leyti komnir í eigu innlendra fagfjárfesta eða erlendra langtímafjárfesta.
Þá ætti að vera hægt að leysa höft af fjármagnshreyfingum tengdum viðskiptum með langtímaskuldabréf tiltölulega fljótlega, svo framarlega sem Icesave-deilan leysist. Næstu skref þar á eftir ráðast af því hvernig til tekst um fyrsta skrefið, en gert er ráð fyrir að eigendum skammtímafjármagns verði að lokum boðið að skipta á krónubréfum og skuldabréfum í erlendum gjaldmiðlum í útboði.