„Það segir meira um þingmanninn en viðkomandi kjaradeilu að hann telur starfstíma löggjafarsamkomunnar vel varið á næstuni með því að hún afnemi samninga- og verkfallsrétt flugumferðarstjóra með lagaboði og setji þannig til hliðar gildar leikreglur í samskiptum á vinnumarkaði,“ segir í tilkynningu frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.
Tilkynningin barst í kjölfar orða Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem vill að sett verði bráðabirgðalög á verkfall flugumferðarstjóra.
Flugumferðarstjórar gera athugasemd við málfutning Kristjáns og þá helst hvað varðar launakröfur, en Kristján gagnrýndi að flugumferðarstjórar rökstyðji ríflegar launakröfur sínar með samanburði við starfsbræður sína erlendis. Benti hann á að allar stéttir myndu koma illa út í slíkum samanburði og að eðlilegra sé að miða laun sín við sambærilega starfshópa hérlendis.
„Hér skjöplast þingmanninum illilega. Vonandi vill hann hafa það sem sannara reynist,“ segir í tilkynningunni og einnig: „Flugumferðarsstjórar rökstyðja EKKI launakröfur sínar með samanburði við erlenda starfsfélaga, heldur miða þær einmitt við sambærilegan starfshóp innanlands, þ.e. atvinnuflugmenn! Samtök atvinnulífsins hafa nýlega gengið frá kjarasamningi við flugmenn og sá samningur er viðmiðun flugumferðarstjóra.“