Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir í grein á vefmiðlinum Smugunni, að í huga þeirra, sem alteknir séu heimsfrelsunaráráttu, sé Icesave-málið uppgjör almennings við fjármagnseigendur og stórkapitalista.
„Ekki skal dregið úr þörf á andófi við því að auðhringir og fjársterkir einstaklingar vaði uppi og valdi almenningi skaða með græðgi sinni. En hverjir skyldu þeir vera þessir stóru fjármagnseigendur sem nú skal klekkt á?" spyr Indriði og svarar, að obbinn af Icesave-sparendum hafi verið venjulegt almúgafólk í Bretlandi og Hollandi, sem hafi reynt að drýgja sparifé sitt með góðri og öruggri ávöxtun.
„Hver var auðlegð þessa fólks? Þegar frá eru taldir nokkur hundruð sjóðir og fjársterkir aðilar, sem fá litlar bætur, standa eftir um 350.000 einstaklingar sem áttu samtals um 700 milljarða króna á reikningum sínum. Um það bil 2 milljónir króna að meðaltali. Meðalsparifjáreign Íslendinga er um 3 milljónir króna á mann. Þurfa íslenskir skattgreiðendur að borga allt þetta til baka? Nei, sem betur fór tókst að ná bankanum af fjárglæframönnunum þótt seint væri og miklum verðmætum var bjargað. Þau voru fyrst notuð til að greiða íslenskum sparifjáreigenda hjá bankanum allar þeirra innstæður. Eftir það er enn til fé sem nægir til að greiða allt að 90% af innstæðum erlendu sparifjáreigendanna. Eftir standa þá að jafnaði um 200.000 kr. óbættar á hverjum reikningi. Um greiðslu þeirra snýst Icesave málið.
Um þetta snýst hið meinta uppgjör við stórkapitalismann. Fyrir það hafa andstæðingar hans hafa sett kíkinn fyrir blinda augað og bundið trúss sitt við hugmyndafræðilega leiðtoga útrásarinnar," segir Indriði.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, skrifar athugasemd við pistil Indriða og segir m.a. að málflutningur Indriða gangi út á að sýna fram á að vegna þess að „almúgafólk“ hafi tapað sparnaði sínum í íslenskum bönkum beri íslenskum skattgreiðendum að borga brúsann.
„Nú veit ég ekkert hverjir það voru almennt sem settu sparnað sinn í Icesave þótt reyndar vilji svo til að ég þekki til nokkurra slíkra einstaklinga! Þeir hafa fengið sitt borgað en eins og kunnugt er greiddu breska og hollenska ríkið innistæðueigendum og kröfðu okkur – íslenska skattgreiðendur - svo um endurgreiðslu á vöxtum, svo miklum að leiðangurinn átti að skila arði! Um þetta hefur síðan verið togast í samningaviðræðum. Eftir því sem liðið hefur á þetta ferli hefur fjölgað í þeim hópi heima og heiman sem telja að skattgreiðendum beri ekki að borga með þessum hætti og að við höfum látið gabba okkur í þessu efni auk þess sem við höfum verið beitt þvingunum."