Kvarta yfir ummælum þingmanns

Stjórnendur sjónvarpsþáttarins Óla á Hrauni á sjónvarpsstöðinni ÍNN hafa sent forseta Alþingis og umboðsmanni Alþingis bréf vegna ummæla, sem Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lét falla úr ræðustóli þingsins í gær.

Krefjast þeir Ólafur Hannesson og Viðar Guðjohnsen þess að þingmaðurinn biðjist afsökunar á ummælum um að stjórnendur þáttarins hefðu spurt sig hvort ekki ætti alveg eins að banna gleðigöngur samkynhneigðra og  nektardans þar sem gleðigöngur misbyðu þeirra siðferðiskennd. 

Í bréfi, sem lögfræðinemi, Ólafur Egill Jónsson, skrifar forseta Alþingis fyrir hönd þeirra Ólafs og Viðars, segir að í umræddum þætti, þar sem Steinunn Valdís var gestur, hafi hún sagt að nektarstaðir brytu gegn siðferðiskennd hennar og allra. Ólafur hafi í  þættinum  sagt, að sumir (ekki endilega hann) myndu telja að klæðnaður á Gay Pride sé ósiðlegur og brjóti gegn siðferðiskennd ákveðina  aðila. Hann hafi spurt í kjölfarið hvort banna ætti Gay Pride á þeim forsendum.

Steinunn Valdís lét ummælin falla á Alþingi eftir að hún sagði að útrýma þyrfti fordómum í garð samkynhneigðra.  Sagði hún að verkefnið nú væri að breyta fordómum og viðhorfum í garð samkynhneigðra.  Löggjafinn þyrfti að velta því fyrir sér hvort setja ætti ákvæði um fræðslu um þessi mál inn í grunnskólalög.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert