Lyfjakostnaður jókst um 16%

Sverrir Vilhelmsson

Lyfjakostnaður sjúkratrygginga jókst um 16% á síðasta ári og er það minni aukning en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta kemur fram í ársskýrslu lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands. Ýmsar sparnaðaraðgerðir drógu úr enn frekari kostnaði vegna falls krónunnar.
 
Lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands jókst minna á árinu 2009 en á horfðist vegna ýmissa sparnaðaraðgerða sem gripið hefur verið til. Sem dæmi hafa breytingar á greiðsluþátttöku vegna PPI-lyfja, blóðfitulækkandi lyfja, blóðþrýstingslyfja og lyfja við beinþynningu lækkað lyfjakostnað í þessum lyfjaflokkum um samtals 820 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.
 
„Ýmsar aðrar aðgerðir hafa einnig dregið úr aukningu í lyfjakostnaði s.s. breyting á smásöluálagningu og verðlækkanir vegna verðendurskoðunar Lyfjagreiðslunefndar. Lyfjanotkun mæld í fjölda skilgreindra dagsskammta (DDD) jókst um 2% frá fyrra ári og er það minni aukning en undanfarin ár.
 
Lyfjakostnaður jókst milli ára þrátt fyrir sparnað
Lyfjakostnaður sjúkratrygginga (sjúkrahúslyf undanskilin) nam 10.743 milljónum króna árið 2009. Kostnaður hefur aukist um 1.456 milljónir króna frá fyrra ári eða um 16%. Fall krónunnar er ástæða aukins kostnaðar. Sparnaðaraðgerðirnar drógu þó úr enn frekari kostnaði. Hafa ber í huga að ef gengi krónunnar hefði haldist stöðugt hefði lyfjakostnaður lækkað. Gert er ráð fyrir að lyfjakostnaður lækki árið 2010 vegna áframhaldandi sparnaðaraðgerða," segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka