Múrbúðin telur að bönkunum sé ekki treystandi til að hafa eftirlit með sjálfum sér „frekar en fyrri daginn“ eins og segir í yfirlýsingu. Múrbúðin gerir athugasemdir við skilyrði sem Samkeppniseftirlitið hefur sett vegna yfirtöku bankanna á nokkrum fyrirtækjum.
„Bönkunum er ekki treystandi til annars en reyna að hagnast sem allra mest. Sanngirni, sjálfsagi og samkeppnissjónarmið eiga ekki heima í slíku umhverfi. Hegðun bankanna síðustu ár segir alla söguna. Sá fjárhagslegi styrkur sem bankarnir veita með aðkomu sinni gerir yfirteknu fyrirtækjunum kleift að vaða á skítugum skónum yfir keppinauta sína með undirboðum og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, halda þeim niðri og koma þannig í veg fyrir eðlilega samkeppni. Fjölmörg dæmi þess liggja þegar fyrir, líkt og í tilfelli Húsasmiðjunnar, sem er í eigu Landsbankans.
Þar að auki er vonlaust að fjölmiðlar, almenningur eða samkeppnisaðilar hafi möguleika á að sannreyna eitt eða neitt um brot á skilyrðunum. Bankaleyndin er skálkaskjólið,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.