Mikil eftirvænting er vegna birtingar á rannsóknarskýrslu Alþingis sem gerð verður opinber í dag.
Gert var ráð fyrir að prenta 6000 eintök af skýrslunni og höfðu margir þegar lagt inn pöntun hjá Bókaverslun Eymundsson í gær.
Klukkan 10 tekur forseti Alþingis við fyrsta eintaki skýrslunnar, rannsóknarnefnd Alþingis mun kynna skýrsluna á blaðamannafundi í Iðnó kl. 10.30 en skömmu áður verður skýrslan sett á netið. Slóðin á netinu er http://rna.althingi.is.
Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, hafa erlendir fjölmiðlar sýnt skýrslunni og blaðamannafundinum mikinn áhuga en aðeins örfáir, einn þýskur og fáeinir norrænir, hugðust þó beinlínis senda eigin liðsmenn hingað. Einnig var sagt hugsanlegt að hollensk sjónvarpsstöð sendi hingað fréttamenn.
Skýrslan verður lesin upp í Borgarleikhúsinu og víðar verða viðburðir vegna hennar, t.d. verður opinn hljóðnemi í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi og getur fólk þar tjáð sig um efni hennar.
Klukkan 15 munu formenn stjórnmálaflokkanna tjá sig um skýrsluna á Alþingi.