Vísbendingar eru um að það sé að koma ný flóðbylgja niður Markarfljót. Gröfumaður sem var farinn að huga að því að gera bráðabirgðaveg yfir Markarfljót var beðinn um að hætta því verki og reyna í staðinn að styrkja varnargarð austanmegin við ána.
Guðjón Sveinsson gröfumaður var byrjaður að undirbúa lagfæringu á veginum sem rofnaði í dag. Hann var hins vegar beðinn að flytja sig eftir að fréttir bárust af því að önnur flóðbylgja væri á leiðina niður Markarfljót. Hann var þá beðinn að fara og reyna að styrkja varnargarða við bæinn Seljaland.
Guðjón hefur staðið í ströngu í dag, en hann rauf skarð í veginn með gröfu sinni. Þeir sem fylgdust með bera lof á framgöngu Guðjóns. Hann segist ekki hafa verið í neinni hættu. Samstarfsmenn sínir hafi verið á vakt og fylgst vel með flóðinu.
Þegar hann var að vinna við gera skarð í veginn rétt fyrir hádegi kom stór bylgja. „Mér leist ekkert á þetta, en ég var kominn á stað þar sem ég var fljótur að forða mér,“ sagði Guðjón.