Vísindamenn í flug að Þorvaldseyri

Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli í gær.
Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli í gær. mbl.is/Árni Sæberg

TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór í loftið nú á tíunda tímanum með vísindamenn og búnað frá Hótel Rangá. Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, er ráðgert að fara að m.a. Þorvaldseyri og koma búnaði fyrir ofan bæinn. Ráðgert er að ferðin og verkefnið muni taka um þrjár klukkustundir. 

TF-Sif, flugvél Gæslunnar, fer ekki í  flug yfir gosstöðvar í dag, en vélin er mun betur tækjum búin til skoðunar og myndatöku en TF-Gná. Að sögn Hrafnhildar helgast það annars vegar af því að ekki er talin þörf á því auk þess sem það vantar mannskap til að fljúga vélinni.

„Flugmaðurinn sem flaug vélinni í gær var bæði búinn að vera á þyrluvakt um helgina og fór svo inn á flugvakt í gær sem ekki var á flugáætlun,“  segir Hrafnhildur og tekur fram að hann þurfi því að hvíla í dag.

Aðspurð segir hún aðeins þrír flugmenn hjá Gæslunni þjálfaða til þess að fljúga Sif sem séu færri en æskilegt væri. Að hennar sögn hefur verið mikið álag á flugmenn að undanförnu og margir þeirra búnir að fljúga of mikið yfir lengri tíma miðað við samninga og reglur.

Tekur hún fram að þetta sé hins vegar aðeins millibilsástand þar sem nú sé verið að þjálfa tveir flugmenn til að fljúga Sif vegna komandi verkefna Gæslunnar fyrir Evrópusambandið. 

Spurð hvort reiknað sé með því að TF-Sif fari í yfirlitsflug yfir gosstöðvar á morgun, segir Hrafnhildur að slíkt verði metið á morgun með hliðsjón af því hvernig gosinu fram vindur.  Bendir hún á að vegna öskufalls sé ekki hægt að komast mjög nærri gosinu, enda flugbann í 10 mílna radíus og upp í 20 þúsund feta hæð við gosstöðvarnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka