Áttu fund með ríkisstjórninni

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, gengu á fund ríkisstjórnarinnar í morgun þar sem farið var yfir afleiðingar gossins í Eyjafjallajökli og flóðanna úr jöklinum. Vindátt mun breytast næstu daga og gerir veðurspá ráð fyrir austanátt eftir helgina sem þýðir að öskufall gæti orðið á höfuðborgarsvæðinu.

„Lögreglan, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir og viðbragðsaðilar allir eiga þakkir skildar fyrir þeirra framlag við að greiða fyrir störfum vísindamanna og almannavarna. Ríkisstjórnin sendir kveðju og þakkir til allra er lagt hafa hönd á plóg við að tryggja öryggi vegna gossins í Eyjafjallajökli,“ segir í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.

Haraldur segir að fylgst sé vel með vindáttum og hvernig þróun öskufallsins verður. Hann fundar í dag með almannavarnanefnd á Hvolsvelli, en þar verður m.a. rætt um þarfir björgunaraðila á svæðinu eftir aðstoð.

Haraldur mun síðar í dag eiga fund með sendiherrum erlendra ríkja, en mikil áhersla er lögð á að koma upplýsingum um afleiðingar gossins til fólks hérlendis og erlendis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert