Kröftugt gos úr stærsta gígnum

Gervihnattamynd sýnir gosmökkinn leggja suður af landinu. Mökkurinn var um …
Gervihnattamynd sýnir gosmökkinn leggja suður af landinu. Mökkurinn var um 400 km langur. Reuters

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli í morgun og sáust þá þrír gígar enn á ratsjá en ekki var hægt að staðfesta gos í þeim öllum.  Stærsti gígurinn gaus þó kröftuglega.

Samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarstöð almannavarna eru gjóskuveggir  orðnir greinilegir norðan við gígana og götin í Gígjökli virðast hafa stækkað.  Sunnan við eldstöðina sást lítill gufustrókur upp úr rásinni þar sem hlaupið niður að Þorvaldseyri fór fram. 

Gosmökkurinn reis í um 6-7 km hæð en gæti farið hækkandi eftir því sem vind lægir. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir, að þar sem nú sé lítill vindur og breytilegur við yfirborð sé aska farin að færast vestar.  Vindur er að verða stöðugri í vestan- og suðvestanátt.

Ekki hafa orðið truflanir eða straumleysi af völdum eldsumbrotanna  ríkislögreglustjóra mæla með grímunotkun í mikilli námunda við gosstöðina þar sem öskufall er sýnilegt.  Fyrri hluta dags á morgun verður líklega þörf fyrir grímur á Skógum, Sólheimasandi, í Mýrdalnum og í Vík í Mýrdal og á Mýrdalssandi.  Þegar líður á daginn verður að líkindum þörf á grímum í Ásólfsskála, í Stóradal, á Seljalandi og hugsanlega í Vestamannaeyjum.  Grímur eru afhentar á heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og í Vestmannaeyjum fyrir þá sem eru staðsettir á þessum svæðum.

Engin þörf er fyrir grímunotkun á höfuðborgarsvæðinu eða öðrum svæðum þar sem ekki er talin hætta á öskufalli.

Íbúafundur verður haldinn kl. 18 í kvöld í Höllinni í Vestmannaeyjum.  Í dag sóttu 150 manns íbúafund í Laugalandi sem er góð mæting.   Þar kom fram að íbúar í Holta- og Landssveit eru tilbúnir að leggja nágrönnum sínum lið.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka