Einhverjum alþjóðlegum vélum sem áttu að lenda í Keflavík og Reykjavík á morgun verður beint til Akureyrar eða Egilsstaða, segir upplýsingafulltrúi Flugstoða. Allar líkur eru nú taldar á að völlunum í Reykjavík og Keflavík verði lokað á morgun.
„Það er unnið út frá þeirri ákvörðun að Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Það eru allar líkur á því, miðað við spána eins og hún er nú,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða. Um er að ræða spá um gjóskudreifingu í nótt og á morgun. Gjóskan nær þó ekki norður á land og verða flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum opnir allri flugumferð.
Eins og fram hefur komið munu Icelandair og Iceland Express flýta flugi í fyrramálið. Flugvélar Icelandair til Parísar, London, Kaupmannahafnar og Manchester/Glasgow, Osló/Stokkhólms leggja af stað klukkan 5 en öðrum flugum á morgun hefur verið aflýst og ný flug sett upp í staðinn.
Flugi félagsins í fyrramálið frá Boston, New York og Seattle í Bandaríkjunum verður stefnt til Glasgow í Skotlandi og þar verður sett um tengistöð. Síðdegisflugi frá Evrópu til Íslands verður sömuleiðis beint til Glasgow.
Icelanda Express ætlar að fljúga til Lundúna klukkan 23 í kvöld.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir, að óvíst sé hve lengi flugvöllunum í Keflavík og Reykjavík verður lokað en miðað við spá megi gera ráð fyrir að loftrýmið lokist upp úr miðnætti í kvöld og verði lokað í að minnsta kosti 12 tíma.
Þetta er í fyrsta skiptið sem loftrýmið í kringum þessa tvo stærstu alþjóðaflugvelli landsins lokast frá því í upphafi eldgoss á Fimmvörðuhálsi þann 21. mars .