Síminn er enn stærsta fjarskiptafyrirtækið á Íslandi og kemur Vodafone næst á eftir. Í fyrra var heildarfjöldi áskrifenda að farsímakerfinu (GSM/UMTS) 329.932. Hjá Símanum voru áskrifendurnir 150.338 talsins, 104.047 voru hjá Vodafone, 54.467 voru hjá Nova og 21.080 hjá Tali. Nova hefur verið í mikilli sókn.
Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og
fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn.
Markaðshlutdeild Nova árið 2008 var 8,2%, en í fyrra mældist hún vera 16,5%.
Markaðshlutdeild Símans í fyrra var 45,6%, en var 51,6% árið 2008.
Vodafone var með 31,5% hlutdeild í fyrra, en hún mældist 34,9% þar á undan.
Tal var með 5,4% markaðshlutdeild árið 2008 en mældist með 6,4% hlutdeild í fyrra.
Í skýrslunni eru til skoðunar þrjú síðustu ár, 2007 – 2009, og er henni skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði.
Helstu fyrirtæki á fjarskiptamarkaðnum eru Síminn hf., Og fjarskipti
ehf. (Vodafone), IP-fjarskipti ehf. (Tal) og Nova ehf.
Síminn rekur bæði talsímaþjónustu á fastaneti og farsímaþjónustu auk internetþjónustu og breiðbandssjónvarp. Á árinu 2007 var fjarskiptanet Símans skilið frá annarri starfsemi þess og stofnað sérstakt félag um rekstur þess, Míla ehf., en bæði félögin eru í eigu Skipta hf.
Vodafone er næst stærst og rekur einnig talsímaþjónustu, farsímaþjónustu auk internetþjónustu og breiðbandssjónvarp. Vodafone er í eigu Teymis hf. og varð til við sameiningu þriggja fyrirtækja sem áður störfuðu á fjarskiptamarkaðnum þ.e. Íslandssími, Tal og Halló. Tal (áður Hive) er dótturfyrirtæki Teymis hf. og endurselur bæði talsímaþjónustu og farsímaþjónustu auk internetþjónustu, fyrirtækin Tal og SKO sameinuðust á árinu 2008.
Nova hóf starfsemi í lok ársins 2007 og rekur farsímaþjónustu.