Ein milljón skoðað vefmyndavélar

Í kynningarmyndbandinu sjást meðal annars ungir krakkar dansa breikdans fyrir …
Í kynningarmyndbandinu sjást meðal annars ungir krakkar dansa breikdans fyrir utan Hallgrímskirkju.

Ein milljón manna hefur fylgst með vefmyndavélunum hjá Inspired by Iceland, kynningarátaki ferðaþjónustunnar sem hleypt var af stokkunum í vikunni. Myndavélarnar eru m.a. staðsettar í Bláa lóninu, Jökulsárlóni og á Austurvelli í Reykjavík. Í gær klukkan hálfþrjú eftir hádegið voru eitt þúsund manns að fylgjast með vefmyndavélunum á sama tíma.

„Megnið af þeim sem hafa skoðað þetta eru ekki Íslendingar," segir Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Það hafi verið markmiðið.

Hann segir að greinilega sé mjög mikill áhugi á því að fylgjast með vefmyndavélunum, hann sé orðinn meiri en á vefmyndavélunum sem sýndu myndir af Eyjafjallajökli þegar gosið stóð sem hæst.

Þá segir Árni að snertingar við vef Inspired by Iceland í gegnum samskiptavefinn Twitter séu nú orðnar þrjár og hálf milljón. Stór hluti af því kom í kjölfarið á því að Björk Guðmundsdóttir benti 400.000 fylgjendum sínum á Twitter á vefinn og bítilsekkjan og listamaðurinn Yoko Ono gerði hið sama fyrir sína fylgjendur, sem eru 900.000 talsins.

Sömuleiðis sýna mælingar að þeir sem sjá aðra benda á Inspired by Iceland eru sextán sinnum líklegri til að taka það upp og benda öðrum á það, heldur en annað sem þeir sjá á Twitter.

Í gær voru aðdáendur átaksins á Facebook um 7.000 talsins. Í dag telja þeir um tuttugu þúsund.

Aðspurður segir Árni erfitt að meta það hvort öskufokið sem gert hefur Sunnlendingum og íbúum Suðvesturhornsins lífið leitt undanfarna daga setji strik í reikninginn. „Ég á nú ekki von á því að það sé svo stórt fréttaefni að það hafi áhrif á erlenda miðla og þeir segi mikið frá þessu. Það eru þeir sem við erum að velta fyrir okkur og geta haft áhrif á erlenda ferðamenn. Ég held að markaðsátakið hafi vakið miklu meiri athygli en þetta öskufok. Það hefur náð eyrum nokkurra erlendra fjölmiðla," segir hann.

„Auðvitað er þetta óþægilegt, en ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu núna. Ég held hins vegar að ef eldgosið færi aftur af stað værum við að tala um allt önnur áhrif af því," segir Árni. Hann segir marga ferðamenn ekki kippa sér upp við öskumistur og vilji jafnvel bara komast nær eldfjallinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka