Landsvirkjun og kínversk fyrirtæki undirrita viljayfirlýsingu

Viljayfirlýsing um samstarf á milli Landsvirkjunar annars vegar og China International Water & Electric Corporation (CWE) og Export-Import Bank of China (Exim Bank) hins vegar var undirrituð í morgun. 

Fram kemur í tilkynningu að yfirlýsingin sé liður í að stuðla að jákvæðum samskiptum og viðskiptum á milli Íslands og Kína og ánægjulegt sé að tekist hafi að koma á sambandi við þessa aðila.

„Yfirlýsingin felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu þessara þriggja aðila en í henni kemur fram áhugi CWE á að bjóða í framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem og áhugi Landsvirkjunar á að fá tilboð frá fyrirtækinu.  Þá lýsir Exim Bank yfir áhuga á að fjármagna hluta verksamninga sem CWE kann að vinna fyrir Landsvirkjun að undangengnu útboði.

CWE er eitt stærsta verktakafyrirtæki Kína og er hér á landi ásamt fjölmennri kínverskri sendinefnd.  Export-Import Bank of China er í eigu kínverska ríkisins og hefur meðal annars það hlutverk að styðja við kínversk fyrirtæki í útflutningi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert