Ályktun var samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um að forystumenn flokksins íhugi vel stöðu sína með tilliti til framtíðar flokksins. Þeir sem hafi þegið háa styrki og meiri fyrirgreiðslur en almenningi stóð til boða sýni ábyrgð með því að stíga til hliðar.
Séra Halldór Gunnarsson lagði til að ályktunin yrði rædd, en Ragnheiður Ríkarðsdóttir, fundarstjóri, taldi meirihluta fundargesta ekki vilja ræða tillöguna. Mat fundarstjórans var mótmælt og eftir talningu starfsmanna fundarins kom í ljós að fleiri vildu ræða ályktunina.
Eftir stutta umræðu um ályktunina var hún samþykkt.