Borgarstjórnarflokkur Sjálfsstæðisflokksins hefur hug á að auka íbúalýðræði í borginni og lagði fram tillögu þar að lútandi í borgarstjórn í gær.
„Borgarstjórn hefur á undanförnum árum verið samstíga í því að leita allra leiða til að auka aðkomu íbúa að stefnumótun og ákvarðanatöku hjá Reykjavíkurborg. Í aðdraganda síðustu (tveggja síðustu) fjárhagsáætlana voru stigin stór skref í þessa átt.
Árið 2008 með því að leita til starfsmanna Reykjavíkurborgar sem lögðu fram mörg hundruð tillögur til hagræðingar og bætts rekstrar hjá borginni og áttu þannig stóran þátt í þeim árangri sem þá náðist. Þessi vinna hélt áfram árið 2009, auk þess sem Reykjavík varð þá fyrsta íslenska sveitarfélagið til að innleiða beina aðkomu borgarbúa með atkvæðagreiðslu á netinu um forgangsröðun framkvæmda í hverfum.
Bæði þessi verkefni voru tilnefnd til verðlauna á vettvangi evrópskra sveitarfélaga sem eftirtektarverðar aðgerðir til aukins íbúalýðræðis. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að halda áfram að vinna fjárhagsáætlun með þessum hætti og leita enn frekari leiða til að tryggja öfluga aðkomu íbúa og starfsmanna að þeim ákvörðun sem framundan eru í fjárhagsáætlanagerð komandi árs. Slíkt er ekki aðeins mikilvægt til að innleiða ný vinnubrögð og auka vald íbúa, heldur sýnir reynslan að slíkar aðferðir auka gæði þeirra ákvarðana sem teknar eru og auka líkurnar á að sá árangur sem stefnt er að náist.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að aðgerðarhópi borgarráðs verði falið að útfæra leiðir til enn frekari þátttöku íbúa og starfsmanna í þeirri fjárhagsáætlunarvinnu sem framundan er," segir í tillögu sjálfstæðismanna.