Mál sem varðaði bílalán sem gengistryggt var með ólögmætum hætti og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í að lánsféð skyldi bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í stað samningsvaxta verður flutt fyrir Hæstarétti þann 6. september.
Niðurstaða héraðsdóma var fyrsti dómurinn sem kveður á um hvernig skuli gera upp veitt lán sem voru gengistryggð. Er lokadóms Hæstaréttar í málinu því beðið með óþreyju enda miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir lánþega og lánveitendur.
Hæstiréttur kvað í júní upp tvo dóma um að gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum stæðist ekki lög. Þar sem lánveitendur gerðu ekki kröfu um breytingu á lánasamningunum tók rétturinn ekki afstöðu til þess hvort eða hvernig skyldi gera lánin upp.