Sólarhringsvakt er hjá Vinnueftirliti ríkisins og er tekið við tilkynningum um vinnuslys hvenær dags sem er.
Fram kom í yfirlýsingu frá veitingastaðnum KFC í dag, að aðeins væri hægt að tilkynna vinnuslys til stofnunarinnar á skrifstofutíma en að sögn Steinars Harðarsonar, umdæmisstjóra, er það ekki rétt. Ef hringt er í aðalsíma Vinnueftirlitsins utan skrifstofutíma næst samband við eftirlitsmann á vakt.
Steinar segir, að starfsmenn stofnunarinnar hafi rannsakað aðstæður í veitingastað KFC í Kópavogi þar sem þrír starfsmenn staðarins slösuðust í gærkvöldi. Verið sé að vinna úr gögnum en ekki hafi verið talin ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða.
Fram kom í tilkynningu KFC, að rekja megi slysið í gærkvöldi til þess, að starfsmaður var að þrífa pott. Hafi potturinn, fullur af vatni, verið settur í gang og honum lokað. Við það sauð vatnið og þegar starfsmaðurinn opnaði pottinn spýttist vatnið yfir hann og tvo aðra starfsmenn. Segir fyrirtækið, að ekki hafi verið fylgt vinnureglum KFC.